A | A | A

Jonas Gahr Støre og Sergei Lavrov: Stjórnun norðurskautssvæðisins

Jonas Gahr Støre og Sergei Lavrov. Foto: Jan Tjernsli, Amb. Moskva.Jonas Gahr Støre og Sergei Lavrov. Foto: Jan Tjernsli, Amb. Moskva

„Stjórnun Norðurskautssvæðisins"

Eftir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs

Því er oft haldið fram að þeir séu orðnir fáir staðirnir á jörðinni sem maðurinn hefur ekki lagt undir sig til nýtingar. Vindbarðar auðnir Norðurskautssvæðisins falla þó örugglega undir þá skilgreiningu. Ýmsir stjórnmálafræðingar halda því einnig fram að landfræðipólitíkin þar sé álíka hryssingsleg, að um sé að ræða lögleysusvæði þar sem allt stefnir í átök vegna „hraðvaxandi kapphlaups um Norðurpólinn".

Við erum þessu ósammála. Við erum sannfærðir um að nota megi Norðurskautssvæðið sem sýnidæmi um hvernig hægt sé að vinna friðsamlega að sameiginlegum hagsmunum með því að framfylgja alþjóðalögum. Við trúum því einnig að sameiginleg verkefni á Norðurskautssvæðinu, sem kalla á lausnir, geti stuðlað að auknum og bættum alþjóðlegum samskiptum á grundvelli samstarfs en ekki metings eða átaka.

Hér er eitt ágætis dæmi. Þann 15. september sl. gerðu Rússneska ríkjasambandið og Noregur með sér tvíhliða samning í Múrmansk um skiptilínur og samstarf í Barentshafi og Norðuríshafi. Með samningunum náðist samkomulag um skiptingu um 175.000 ferkílómetra umdeilds hafsvæðis þar sem líkur eru á að auðugar náttúruauðlindir finnist. Ríkin tvö hyggjast einnig samþykkja ítarleg samningsákvæði um samstarf um nýtingu á jarðolíu og -gasi og fiskveiðistjórnun.

Hvers vegna er þetta samkomulag mikilvægur áfangi? Vegna þess að fá alþjóðleg deilumál eru ríkjum erfiðari úrlausnar en ósætti um skiptilínur og mæri á hafi úti. Það tók reyndar fjóra áratugi að ganga frá samningnum en að lokum færði hafréttarsáttmálinn okkur þann lagaramma sem nauðsynlegur var til þess að vinna bug á einskis nýtum samkeppnisrökum og að einbeita okkur þess í stað að lausn sem væri öllum í hag. Við leyfum okkur því að vona að samningurinn hvetji önnur ríki til þess að leysa úr deilumálum sínum um skiptilínur á höfum úti, bæði á Norðurslóðum og annars staðar, þannig að komist verði hjá átökum og að alþjóðlegt samstarf styrkist.

Hvernig næst það takmark? Þrennt má læra af reynslu okkar:

Í fyrsta lagi sýnir reynsla Rússa og Norðmanna að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS) er raungóð forsenda þess að takast á við vandamál sem koma fram með loftslagsbreytingum á Norðurskautsvæðinu og umbreytingum á Norðuríshafi. Það fékkst staðfest enn frekar þegar fimm mikilvæg strandríki við Norðuríshaf, Kanada, Danmörk (Grænland), Noregur, Rússneska ríkjasambandið og Bandaríki Norður Ameríku, gáfu í sameiningu út Ilulissat-yfirlýsinguna. Ríkin viðurkenna þar þau nýju vandamál sem við blasa, bæði vegna loftslagsbreytinga og þess að ís á Norðurskautssvæðinu er að bráðna, auk þess sem þau staðfesta að víðtæk alþjóðleg löggjöf nái líka til Norðuríshafsins. Í Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna er auðvitað ekki að finna sértækar lausnir og stefnumörkun vegna allra þeirra nýju vandamála sem okkar bíða í norðri. Þar er hins vegar að finna nauðsynlegar lagalegar grundvallarforsendur fyrir samningum og samstarfi til framtíðar litið hvað Norðurskautssvæðið varðar.

Í annan stað hefur sannast að það getur skapað óhemjumikil verðmæti, bæði fyrir hvert ríki fyrir sig og alþjóðasamfélagið í heild sinni, þegar ríki vinna að hagsmunum sínum til lengri tíma litið og stefna að sjálfbærum lausnum sem eru öllum í hag. Einmitt þetta á við um skiptilínurnar í Barentshafi og Norðuríshafi. Með samningnum um þær fær hvort ríki fyrir sig nú aðgang að verðmætum sem fara langt fram úr þeim mögulega hagnaði sem annað hvort þeirra hefði getað tryggt sér með því að gera tímafrekar kröfur um stærri hluta hafsvæðisins. Samningurinn gefur einnig kost á samstarfi á öðrum sviðum, allt frá samvinnu vísindamanna til sjóslysavarna og umhverfisstaðla. Þetta skiptir norðlæg samfélög beggja landa miklu máli til framtíðar litið.

Að lokum hefur reynslan kennt okkur að nauðsynlegt er að tileinka sér þolinmæði í viðræðum með það fyrir augum að byggja upp traust á milli samningsaðila í alþjóðlegum samskiptum. Sé traustið ekki til staðar, koma viðsemjendur ekki á þeim leitandi og skapandi viðræðum sem nauðsynlegar eru til þess að geta náð árangri. Norðurskautsráðið er afar mikilvægur vettvangur hvað þetta varðar (en þar mætast átta Norðurskautsríki, bæði stjórnmálamenn og sérfræðingar) og einnig Barentsráðið. Bæði þessi ráð eru veigamiklir vettvangar fyrir frjóar viðræður, til að auka traust og að fella nýjustu þekkingu að stefnumörkum og ákvarðanatöku. Það er því mikilvæg fjárfesting að styrkja þessar stofnanir.

Samstarf er ekki alltaf auðvelt og það verður vissulega bæði tímafrekt og ekkert áhlaupaverk að nýta sér þessa reynslu í reynd. Við erum þó sannfærðir um að samstarf af þessu tagi sé fyrir öllu því það eykur mjög líkur á því að hægt verði að þróa sameiginlegar heildarlausnir sem eru meira virði en hver þáttur þeirra fyrir sig getur orðið. Því ef það er nokkuð sem nístingskuldi og dimmir vetur Norðurskautssvæða geta kennt okkur, er það sú staðreynd að enginn þraukar þar einn síns liðs um langa hríð.

(Birt í Mbl. laugard. 25. október 2010. Þýð. úr ensku: Matthías Kristiansen)


Visste du at...