A | A | A
Apr
30
Oct
-03
Dato:  30 april 2009 - 03 oktober 2009

Hamsun-árið 2009 á Íslandi

Þann 4. ágúst nk. eru liðin 150 ár frá fæðingu rithöfundarins Knuts Hamsuns sem af mörgum er talinn mesta skáld Norðmanna en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1920.  Í tilefni þess verður mikið um hátíðahöld á árinu í Noregi og annars staðar - meðal annars á Íslandi.

Stundum hefur því verið haldið fram að enginn erlendur rithöfundur hafi haft meiri áhrif á íslenskar nútímabókmenntir en Knut Hamsun. Tólf bækur eftir Knut Hamsun hafa verið þýddar á íslensku og orðið vinsælar og dáðar, s.s. Sultur, Gróður jarðar, Loftskeytamaðurinn og Pan, svo að fáeinar séu nefndar. Kvikmyndir sem byggjast á bókum Hamsuns hafa sömuleiðis notið vinsælda meðal Íslendinga.

Hátíðin er styrkt af Norska sendiráðinu á Íslandi og verkefnisstjóri hátíðarinnar er Ellen Marie Fodstad.

30. april: Hátiðin sett í Borgarbókasafni Reykjavíkur

Opnun á sýningu á bókum Hamsuns í Borgarbókasafni Reykjavíkur kl. 17.00. Sendiherra Noregs á Íslandi, Margit Tveiten býður gesti velkomna. Sigurður Skúlason leikari les smásögu eftir Hamsun. Léttar veitingar.

Í aðalsafni Borgarbókasafns við Tryggvagötu verður verkum Hamsuns gert hátt undir höfði frá 30. apríl til 17. maí. Verður bókum hans, bæði íslenskum þýðingum og verkum á öðrum málum, stillt upp og eins verður vakin athygli á skrifum um skáldskap Hamsuns hér á landi og tengslum hans við íslenskar bókmenntir og rithöfunda. Á sýningunni verða einnig ljósmyndir eftir Ellen M. Fodstad sem hún tók á Íslandi og í Noregi, en hugmyndin að þeim er sótt í skáldsögu Hamsuns, Pan, sem fyrst var gefin út árið 1894.

30. apríl til 17. maí: Bækur Hamsuns og ljósmyndasýning

Syningar á bókum Hamsuns  og  ljósmyndasýningin Pan verða einnig settar upp 30. apríl til 17. maí á Amtsbókasafninu á Akureyri, Bókasafninu á Húsavík, Bókasafni Vestmannaeyja, Bæjar- og héraðsbókasafninu á Ísafirði, Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi (1.-18. október), Bókasafninu á Höfn í Hornafirði, Bókasafninu í Hveragerði, Bókasafninu í Norræna húsinu.

Bækur Hamsuns liggja einnig frammi í bókaverslun Eymundsson, Austurstræti.

 

5. og 9. maí: Kvikmyndasýning í Bæjarbíói

Danska kvikmyndin, Sultur (1966) eftir samnefndri bók Hamsuns í leikstjórn Hennings Carlsen, verður sýnd í Bæjarbíói, Hafnarfirði, á vegum Kvikmyndasafns Íslands, þriðjudaginn 5. maí kl. 20:00 og laugardaginn, 9. maí kl. 16:00. Helstu leikarar í myndinni eru: Per Oscarson, Gunnel Lindblom og Birgitte Federspiel.

6. mai: Leiklestur i Norræna húsinu

Trond Giske, menningar- og kirkjumálaráðherra Noregs flytur ávarp. Leikararnir Gunnar Eyjólfsson og Þórir Sæmundsson lesa úr verkum Knuts Hamsuns Grónum götum og Viktóríu: ástarsögu í Norræna húsinu kl. 19.30. Léttar veitingar. 

2. og 3. október: Hamsun-ráðstefna  i Norræna húsinu

Háskóli Íslands og Norska sendiráðið standa fyrir málþingi um Knut Hamsun dagana 2-3. október í Norræna húsinu. Fluttir verða fyrirlestrar og hugleiðingar um líf og verk Knuts Hamsuns og áhrif hans á norskar og íslenskar bókmenntir.

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði hátiðarinnar.