Hér er að finna upplýsingar um það að taka með sér lystibát til Noregs. Yfirleitt eru ekki lagðir tollar eða gjöld á aðrar eigur sem fólk flytur með sér til eigin nota. Nánari upplýsingar um gildandi reglur um innflutning á tilteknum hlutum og öðrum tollskyldum varningi er að finna á heimasíðu tollyfirvalda. Sendiráðið getur enga ábyrgð borið á breyttum reglum eða gjöldum eftir að þessi grein var samin.
Það á að greiða virðisaukaskatt og bátavélagjald til Tollstjóra (Tollvesenet) þegar lystibátar eru fluttir inn til Noregs. Frá og með 1. júlí 2002 eru hins vegar ekki greiddir tollar af lystibátum. Sé bátum eða skipum siglt til Noregs ber stjórnanda strax að hafa samband við næstu tollstöð. Hægt er að fá undanþágu frá kröfunni um greiðslu þessara gjalda sé um að ræða tímabundna dvöl og að viðkomandi bátur/skip sé frá einhverju Norðurlandanna. Ekki þarf heldur að gefa þá upp til tolls. Sama á við um notaða báta sem eru með í farangri innflytjanda.
Bátavélagjald
(sbr. bréf frá TAD nr. 17/2002 S)
Gjald á bátavélar (það er vélar sem knýja báta áfram, þar með taldar blokkir í þannig vélar) er um þessar mundir norskar kr 126,50 á hestafl. Gjaldskylda er vegna bátavéla sem eru a.m.k. 9 hestöfl. Rafvélar eru undanþegnar gjaldinu.
Virðisaukaskattur (moms)
Þegar gjaldi vegna bátavélar hefur verið bætt við verðmætið er að lokum reiknaður 24% af heildarverðmætinu.
Tímabundin notkun í Noregi
Leyfilegt er að flytja inn erlenda báta með eftirfarandi skilyrðum:
að báturinn sé fluttur inn af einstaklingi sem ekki hefur fast aðsetur í Noregi og sem ekki hyggst dveljast þar lengur en í hálft ár,
að báturinn sé fluttur inn til tímabundinnar notkunar og að því búnu fluttur aftur út í síðasta lagi hálfu ári eftir innflutning. Ekki er leyfilegt að fá einstaklingi búsettum í Noregi bátinn í hendur án tollmeðferðar,
að báturinn sé aðeins notaður í Noregi af einstaklingi sem uppfyllir skilyrði fyrsta liðar,
að báturinn sé eingöngu nýttur til einkanota en ekki til flutninga á fólki eða vörum í atvinnuskyni gegn þóknun eða annarri greiðslu.
Samkvæmt reglum um farangur ferðamanna mega ferðamenn sem búsettir eru erlendis flytja eftirtalda hluti sem farangur án tolla og gjalda til landsins á ferðalagi sem ekki varir lengur en eitt ár: bretti og búnað til brettasiglinga, kanóa og áþekka vélarlausa smábáta. Þennan búnað verður að flytja út á ný þegar farið er úr landi.
Búslóð
(sbr. Reglugerð um tollfrelsi vegna notaðra lystibáta sem fluttir eru til Noregs við aðflutning eiganda, § 1)
Toll- og avgiftsdirektoratet eða Tollstjóraembættið eða sá sem til þess hefur umboð getur samkvæmt umsókn veitt undanþágu frá gjöldum vegna 1 (eins) lystibáts sem fluttur er inn til Noregs við aðflutning eiganda. Umsókn þar að lútandi skal send Svæðistollstjóra (Tolldistriktssjefen) á því svæði sem flutt er til. Eftirfarandi skilyrði gilda um undanþáguna:
Eigandinn verður að hafa verið búsettur erlendis samfellt í að minnsta kosti fimm ár áður en hann flutti til Noregs.
Báturinn má ekki vera meira en 12 m að lengd samtals (l.o.a.).
Eigandinn verður að hafa átt bátinn í a.m.k. 12 mánuði áður en hann flytur til landsins og notað hann erlendis í jafnlangan tíma.
Eigandinn verður að eiga bátinn og þann búnað sem honum tilheyrir í 2 ár eftir tollmeðferð áður en hægt er að selja hann eða afhenda öðrum.
Leggja þarf fram gögn fyrir skilyrðum vegna undanþágu.