A | A | A

Félagsleg réttindi, leikskólar og lífskjör

Félagsleg réttindi

Félagsleg réttindi í Noregi og á Íslandi eru að ýmsu leyti sambærileg. Flytji norrænir borgarar til Noregs eiga þeir að fylla út samnorrænt flutningsvottorð. Þegar búið er að skila þessu vottorði til þjóðskrárskrifstofunnar (folkeregisteret) í viðkomandi sveitarfélagi, nýtur þú sem norrænn ríkisborgari sömu félagslegu réttinda og norskir borgarar. Ef þú vilt fá nákvæmari upplýsingar um þær reglur sem í gildi eru, mælum við með að haft sé samband við stjórnsýslustofnun þess sveitarfélags sem flytja á til. Almennar upplýsingar um félagsleg réttindi í Noregi er einnig að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar Noregs, Rikstrygdeverket.

Leikskólar

Börn undir skólaaldri geta komist á leikskóla, bæði í eigu sveitarfélagsins og í einkaeign. Yfirleitt er innritun einu sinni á ári hjá leikskólum sveitarfélaga. Hægt er að fá umsóknareyðublað með því að hafa samband við leikskólana sjálfa eða stjórn leikskóla í hverju sveitarfélagi.

Mjög breytilegt er hve auðvelt er að fá leikskólapláss. Því er best að hafa samband við sveitarfélagið sem áformað er að flytja til og fá nánari upplýsingar um möguleika á leikskólaplássi. Sveitarfélagið og foreldrar deila kostnaði af leikskólaveru barna. Í sumum sveitarfélögum er greiðsla foreldra í samræmi við tekjur þeirra, annars staðar er um fastagjald að ræða.

Mörg sveitarfélög veita upplýsingar um leikskólapláss sín á Netinu.

Lífskjör

Lífkjör eru óvíða í heiminum betri en í Noregi. Norðmenn kosta miklu til húsnæðismála og nú eiga um 80 af hundraði þeirra sitt húsnæði sjálfir, aðeins um 20 af hundraði búa í leiguhúsnæði.

Verðlag á matvælum og fatnaði er að mestu leyti áþekkt því sem þekkist á Íslandi. Laun eru þó ef til vill nokkru hærri en á Íslandi og því eru ráðstöfunartekjur norskra heimila oft nokkru hærri en íslenskra.

Sífellt algengara verður að hugtakið efnisleg lífskjör sé notað í breiðari merkingu og þýði lífsgæði. Aðgengi að opnum svæðum og nálægð við náttúruna gegna mikilvægu hlutverki í þessu samhengi og mjög algengt er að fólk í Noregi nýti sér þannig tilboð.