A | A | A

Að flytja bifreið til Noregs

Hér er að finna upplýsingar um það að taka með sér bifreið til Noregs. Yfirleitt eru ekki lagðir tollar eða gjöld á aðrar eigur sem fólk flytur með sér til eigin nota. Nánari upplýsingar um gildandi reglur um innflutning á tilteknum hlutum og öðrum tollskyldum varningi er að finna á heimasíðu tollyfirvalda. Sendiráðið getur enga ábyrgð borið á breyttum reglum eða gjöldum eftir að þessi grein var samin.

Nauðsynlegt er að hafa gilt ökuskírteini til að aka bíl í Noregi. Íslenskt ökuskírteini gildir í Noregi og ekki þarf að skipta því í norskt nema þú ætlir að stunda fólksflutninga. Ef þú ætlar að flytja til Noregs og hyggst taka með þér bifreið skaltu hafa eftirfarandi í huga:

Þú þarft að fylla út eyðublað um tollmeðferð sem tollayfirvöld stimpla.
Greiða þarf gjald sem aðeins verður lagt á einu sinni. Upphæðin er m.a. háð því hve gömul bifreiðin er.

Greiða þarf árgjald og úreldingargjald fyrir bifreiðina.
Hægt er að skrá bifreiðina með því að snúa sér til einnar af hinum 70 skoðunarstofnunum (trafikkstasjon) í Noregi. Við skráningu ber að leggja fram gild tryggingagögn ásamt nafnskírteini.
Skylt er að færa bifreiðar sem fluttar eru inn til Noregs til skoðunar. Nánari upplýsingar fást hjá skoðunarstofnuninni á staðnum sem þú flytur til.

Tímabundinn akstur bifreiðar í Noregi sem skráð er erlendis. Yfirleitt er ekki leyfilegt að aka bifreið skráðri á Íslandi lengur í Noregi en þrjá mánuði (t.d. í sumarfríi). Þó er leyfilegt flytja inn bifreið sem skráð er erlendis og aka henni í eitt ár án þess að greiða tolla og gjöld í Noregi ef hægt er að færa sönnur á að dvöl í landinu fari ekki fram úr einu ári (t.d. vegna náms eða tímabundins atvinnusamnings) eftir að komið var til landsins. Sé sótt um það getur svæðisstjóri tollstjóra (tolldistriktssjefen) framlengt leyfið í eitt ár í viðbót ef hægt er að færa sönnur á að dvöl í landinu muni ekki vara lengur en 2 ár eftir að komið var til landsins. Umsóknina ber að senda innan eins árs eftir að komið var til landsins. Það er að jafnaði ekki leyfilegt að nota farartæki skráð erlendis til fólks- eða vöruflutninga á milli staða í atvinnuskyni í Noregi.