Hér er að finna upplýsingar um norska skólakerfið:
Grunnskólar (barna- og unglingaskólar)
Framhaldskólar
Lýðháskólar
Grunnskólar
Þegar flutt er til Noregs þarf að fylla út vottorðið RF-1401 - ath. upplýsingar á Skatteetaten.no. Það er lagt inn hjá manntalsskrifstofunni á þeim stað sem flutt er til innan 8 daga eftir að þangað er komið. Við skráningu verða öll börn á skólaskyldum aldri skráð í norska skólakerfið. Hafið einnig samband við skólann eða skólaskrifstofu á staðnum eins fljótt og auðið er. Samkvæmt lögum um skyldunám eiga nemendur rétt á ókeypis skólaakstri ef gönguleið frá heimili til skóla er lengri en 4 km (fyrir nemendur í fyrsta bekk er vegalengdin 2 km).
Skólaganga barna hefst árið sem þau verða 6 ára, líkt og á Íslandi. Barnaskólinn nær frá 1. til 7. bekkjar (1. - 4. og 5. – 7.), unglingaskólinn frá 8. til 10. bekkjar. Skólaárið stendur yfirleitt frá um 15. ágúst til um 25. júní. Í skólunum er haust- og vetrarfrí.
Í öllum sveitarfélögum á að bjóða upp á heilsdagsskóla fyrir börn í 1. til 4. bekk en framboðið er breytilegt frá einu sveitarfélaginu til annars. Foreldrar greiða fyrir þjónustuna. Hafið samband við sveitarfélagið og spyrjist fyrir um framboðið þar sem setjast á að.
Framhaldsskólar
Allir unglingar 16 – 19 ára eiga lögbundinn rétt til þriggja ára heils dags framhaldsnáms. Fyrsta árið í framhaldsskólamenntuninni kallast grunnáfangi (grunnkurs - GK), annað árið framhaldsáfangi I (videregående kurs I - VK I) og þriðja árið framhaldsáfangi II (videregående kurs I - VK II). Námsframboð getur verið breytilegt eftir skólum og fylkjum. Skólaskrifstofa hvers fylkis er með yfirlit yfir framboðið þar (leitaðu að viðeigandi fylki á www.norge.no).
Með þessu þriggja ára námi aflar nemandinn sér námsréttinda, starfsréttinda eða réttinda að hluta til.
Námsbrautir: Um er að ræða 13 grunnáfanga fyrsta árið í framhaldsnámi. Grunnáfangarnir samsvara þeim námsbrautum sem boðið er upp á framhaldsnámi. í framhaldi af grunnáföngunum er hægt að sækja um nám í ýmsum framhaldsáföngum. Fylkisskólaskrifstofurnar eða Fræðsluskrifstofa ríkisins (Statens utdanningskontor) veita nánari upplýsingar um þá möguleika til framhaldsnáms sem í boði eru. Þannig skrifstofur er að finna í öllum fylkjum. Þeir 15 grunnáfangar sem vísa til námsbrauta eru:
- námsbraut fyrir allmennar greinar, hagfræði- og stjórnunargreinar
- námsbraut fyrir tónlist, dans og leiklist,
- námsbraut fyrir íþróttagreinar
- námsbraut fyrir heilbrigðis- og félagsgreinar
- námsbraut fyrir hönnunargreinar
- námsbraut fyrir nýtungu náttúruauðlinda
- námsbraut fyrir hótel- og matvælagreinar
- námsbraut fyrir byggingargreinar
- námsbraut fyrir tæknilegar byggingargreinar
- námsbraut fyrir rafgreinar
- námsbraut fyrir vélgreinar
- námsbraut fyrir efnafræði- og vinnslugreinar
- námsbraut fyrir trésmíðagreinar
- námsbraut fyrir verslunar- og þjónustugreinar
- námsbraut fyrir upplýsinga- og fjölmiðlagreinar
Að loknum grunnáfanga halda nemendur yfirleitt áfram og fara í framhaldsáfanga. Nemendur keppa um skólavist í VKI námsbraut á grundvelli einkunna í grunnáfanga. Enginn hefur rétt á að komast inn í ákveðna VKI námsbraut að afloknum grunnáfanga en réttur til þriggja ára framhaldsmenntunar þýðir að nemendur eiga að fá tilboð um framhaldsáfanga sem byggist á þeim grunnáfanga sem lokið er.
Umsókn um skólavist í norskum framhaldsskólum er gerð á sérstakt eyðublað sem hægt er að nálgast hjá framhaldsskólunum, á skólaskrifstofu fylkisins eða á skrifstofum atvinnumiðlunar. Umsóknin skal send inntökuskrifstofu þess fylkis sem umsækjandi býr í. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar fyrir þá sem sækja um skólavist á grundvelli sértækrar kennslu og þann 1. apríl fyrir alla aðra.
Lýðháskólar
„Lýðháskólanám er bæði faglegt nám og félagslíf, heild og smáatriði, breidd og dýpt, samræður og námskeið, hraði og hvíld, tjáning og íhugun, gaman og alvara." (Tilvitnun úr bæklingnum „Lýðháskólar í Noregi".)